Upphaf nýs menningar tímarits

Það er einhver mygla í loftinu. Er það ekki? Önnur hver skólastofnun í landinu þarf að loka eða breyta starfsemi sinni vegna myglu þessa dagana. Kennarar þurfa að taka sér löng veikindaleyfi og þau sem eftir eru þurfa að brjóta bakið sitt við að kippa símum úr höndum barna sem festast í dómsskruni (doomscrolling) á samfélagsmiðlum. Klárum stærðfræðina, íslenskuna og enskuna og fáum okkur síðan pylsu, kannski komast stelpurnar þá í menntaskóla anorexíunnar á meðan strákarnir falla í þunglyndi sitt.

En kannski er barnið í ,,réttum” grunnskóla og fer í ,,réttan” menntaskóla sem sendir það áfram í ,,réttan” háskóla. Þá fær það að standa á palli fyrir fram klappandi hóp foreldra sem bjóða það velkomið í heim hins ,,æðra,” þeirra sem lesa og skilja og mega hafa skoðanir. Hin fylgjast með, hverfa inn í þögult samfélag og gjáin á milli þessara hópa stækkar, og stækkar, og stækkar...

Þetta er kannski svartasta myndin sem hægt er að draga upp af okkar samfélagi. Raunin er vissulega önnur, þar sem við höfum öll tækifæri og getum öll verið hluti af samtali um menningu, óháð uppruna. Vissulega eru til staðar samfélagslegar hindranir í þeim efnum en þess vegna er það hlutverk meirihluta landsmanna, þeirra sem sitja ofan í gjánni, að brúa bilið á milli. Til dæmis mað því að stofna nýtt tímarit til þess að koma skoðunum hóps um menningu á framfæri. Sem er einmitt það sem við gerðum.

***

Smiðill er hugmynd sem spratt upp í kollinum á mér á stilltu vorkvöldi þar sem ég lá upp í rúmi. Grá birta skein inn þar sem ég starði upp í loftið og leyfði vangaveltum að hringsólast í heilabúinu. Ég var þreyttur, búinn að lesa menningarstefnur og sögu kláms allan daginn fyrir skólaverkefni sem ég átti að skila eftir allt of skamman tíma.

Hvernig getum við brúað bilið milli miðbæjarrottunnar og úthverfafólksins? Góða og vonda fólksins. Woke og ekki-woke fólksins. Það má nota hvaða orðalag sem er og aldrei kemur það neitt skemmtilega út. Staðreyndin er sú að flest sitjum við ofan í gjánni á milli þessara hópa, á gráa svæðinu. En við trúum því innilega að við eigum að vera uppi á brúninni. Við hættum að tala saman af því að ég tel mig eiga að vera vestan megin en þú austan megin, en við erum nákvæmlega þar sem er best að vera og ættum að nýta tækifærin sem bjóðast þar. Það er hluti af þjóðarsálinni. Lándnámsmennirnir stofnuðu Alþingi íslendinga ofan í dæld milli tveggja jarðfleka. Án þess að gera sér grein fyrir því þá var þetta eins og pólitískur gjörningur, að halda ríkisstjórninni á gráa svæðinu.

Sem landvörður á Þingvöllum er það mitt starf að kafa ofan í gjárnar, bókstaflega og táknrænt. Árlega fer ég með nokkur hundruð manns á öllum aldri og frá öllum heimsálfum í fræðslugöngur þar sem ég þarf að þýða menningu Íslands yfir á tungumál sem þau skilja. Við sem höfum þetta að atvinnu förum létt með það og því spyr ég; af hverju ætti það að vera eitthvað flóknara að þýða menningu innanlands?

Opið og aðgengilegt. Ef tungumál, verðlagning, stjórnmál og orðræða fara að fléttast inn í miðlun menningar er hún orðin opin einum en lokuð og læst öðrum. Við verðum að sætta okkur við að íslendingar tala ekki sama mál, deila ekki skoðunum og búa ekki yfir jöfnum fjármunum, og er það að mörgu leiti háð búsetu. Smiðill snýst um að mæta fólki á jafningjagrundvelli. Við gerum ekki kröfur um stíl, nákvæma heimildaskráningu, skoðanir eða menntun. Öll geta fengið ritrýni og birtingu. Ef okkur tekst að tryggja það erum við á réttri leið.

Við erum engin töfralausn og hver veit, kannski endum við á að gera ekkert nýtt og verðum bara eins og allir aðrir. En okkur leyfist að reyna og leyfist að dreyma.

***

Það rekur enginn tímarit einn síns liðs. Að eiga hugmyndina var einfaldasti hluti ferlisins. Að baki þessa tímarits stendur hópur fólks sem hefur unnið hörðum höndum að því að setja á fót eitthvað fallegt, eitthvað mannlegt. Fólk sem skrifar af eldmóð og teiknar af ástríðu, skipuleggur viðburði og stýrir verkefnum eins og líf þeirra liggi við. Það sem hópurinn á sameiginlegt er viljinn til þess að vera hluti af breytingunni.

Það krefst kjarks að taka þátt í nýju verkefni með fólki sem hefur takmarkaða reynslu á þessu sviði. Það krefst enn meiri kjarks að taka sín fyrstu skref í að skrifa, senda efni í ritrýni og þurfa að lesa það sem ritstjórn finnst um þínar skoðanir, pælingar og ástríðu. Þess vegna skila ég þökkum til þeirra sem tóku af skarið og bjuggu til efni til þess að koma þessum miðli á flot.

Greinarnar á þessari síðu eru fjölbreyttar og faglegar, en þeim tekst öllum að kjarna það sem við stöndum fyrir. Lesendur geta skemmt sér við að skoða hugmyndaríka myndasögu, fundið út hvernig heimspeki útskýrir þörf okkar fyrir að skoða stutt myndskeið á símunum okkar, hvernig gjár myndast í samskiptum þjóðfélagshópa og fengið innsýn í íróníu náttúruverndar.

Við munum enn fremur leggja áherslu á þá menningu sem er ríkjandi í dag. Út með bækurnar og inn með þættina. Leikhúsið þarf að víkja fyrir tölvuleikjamenningu og bíóið situr hjá á meðan við fjöllum um allt það sem mönnum tekst að setja á internetið. En ekki blekkjast! Ef þú, lesandi kær, vilt fá alla þína hámenningarörvun beint í æð geturðu verið viss um að fá það hjá okkur, því heimspekingar, leikskáld, rithöfundar, fræðafólk og handritshöfundar hafa verið að fjalla um einmitt þessa nýju menningu síðustu þúsund árin. Það er sáralítill munur á því að greina menningu internetsins og þjóðfræði víkingaldar. Þetta er einungis spurning um að taka af skarið.

***

Smiðill er Rodalon menningariðnaðarins. Þú færð okkur ódýrt og þess vegna mun það ábyggilega reynast þér vel að nota okkur til þess að láta mygluna hverfa. En ef vandamálið er til staðar er líklegt að það þarf að fara út í ennþá ítarlegri aðgerðir, fá sérfræðinga í málið og takast á við rót vandans. Í bili geturðu notið þess að spreyja okkur í hornið á gluggakistunni og fylgjast með vandamálinu hverfa um stund.

Og ef það nægir ekki þá geturðu skrúbbað upp mygluna sjálfur. Öll vinna við Smiðil er sjálfboðaliðavinna. Þess vegna hvetjum við þig til þess að senda á okkur greinar, skoðanir, prósa og myndverk. Þannig sköpum við saman opna og uppbyggilega umræðu um menningu.

Ef þú sérð fyrir þér að Smiðill sé umhverfi fyrir þig þá hvet ég þig, kærandi lesandi, til þess að vera hluti af breytingunni.

Með baráttukveðjum,

Tryggvi J. Thayer, ritstjóri

To our English speaking readers.

Smiðill is a magazine founded with a purpose to bring cultural worlds of Iceland closer together in times of polarization and classism. Its goal is to increase people’s understanding of culture, both their own and of others. It is a place where submissions from whomever are given a chance, edited and published without the constraints of education, formal tone or how references are documented.

For the time being, availability of articles in English is limited to what is translated by the authors. The beauty of the digital world we live in is that the browser can always translate the article for you. But you can also be the change. The submission form on our homepage is open to you and we encourage you to send in any content in english that investigates Icelandic culture and seeks to bring you closer to that which you and the reader might not identify with.

With that said, it should be mentioned that Smiðill is not a magazine for tourists. It does not seek to explain or sell culture abroad. The intentions of an article should purely be to inspire residents of Iceland.

I sincerely hope you can find inspiration in our articles and have fun reading them.

Tryggvi J. Thayer, editor in chief