Myndir þú skeina þér með Gillz?
Símaskráin 2011 - Tryggvi J. Thayer
Hann starir á mig þvert yfir herbergið, svolítið eins og dúkkan Annabelle úr samnefndri kvikmynd. Það er eitthvað óhugnanlegt við þetta augnaráð. Kannski var það ekki eins óhugnanlegt þegar það birtist fyrst árið 2011, en nú geta ég varla horft á þetta kalda, grimma og tilfinningalausa bros. Bara skeifulaga varir á litlum haus á allt of stórum búk á allt of litlum fótum.
Fimleikastelpurnar fyrir aftan hann eru þó öllu vinalegri. Brosandi í hinum ýmsu stellingum eins og sýningargripir þjóðar í molum eftir eitt stærsta efnahagsslys í sögu sjálfstæðs Íslands. Það er inngróið í þjóðarsálina að draga fram fimleika þegar við viljum fagna árangri og sýna hvað í okkur býr, eins og til dæmis við lýðveldisstofnunina eða Alþingishátíðina, en 21. aldar ummerkin eru bersýnileg í þessari samsetningu fimleikakvennanna og steratröllsins Gillz þar sem öll áhersla er lögð á valdastrúktúrinn hans í höfundaverki sínu.
Fyrir þau sem kannski muna ekki þá er þetta símaskráin 2011, eins og teygjan á sundbuxum Gillz gefur til kynna. Útgáfu hennar fylgdi mikið fjölmiðlafár sem ég, eins og flestir viðmælendur mínir, taldi lengi að hefði verið það sem batt enda á sögu símaskrárinnar, en svo er víst að útgáfa hennar hélt áfram í fimm ár. Það kallast víst Mandela-hrif. En það sem fólk man vel eftir er atburðarásin: Gillz titlaður sem meðhöfundur, myndbreytingarásakanir, stera umræðan, kynferðisbrota kæran, símaskráin tekin úr sölu og loks límmiðafárið. Hvernig æxlaðist þetta allt saman?
***
Þau sem þekkja mig vita að ég er mikill safnari. Foreldrar mínir eru búin að vera að grafa upp hluti á bernskuheimilinu síðan ég flutti út fyrir tveimur árum sem mér hefur tekist að fela í ýmsum krókum og kimum. Þetta eru helst munir sem gætu talist til menningarminja, allt frá upphafi síðustu aldar og til dagsins í dag. Það sem heillar mig mest er viðsnúningstímabilið eftir hrun, 2008-2015. Víðtæk hugarfarsbreyting varð á þessum tíma sem skapaði eitt áhugaverðasta menningarsögutímabil sjálfstæðs Íslands, að mínu mati.
Það var því eins og að eiga afmæli þegar samstarfskona mín gaf mér þessa símaskrá. Ég tyllti henni á eldhúsbekkinn andspænis útidyrahurðinni þar sem ég bý í vinnunni, svo herbergisfélaga mínum var „mjög“ skemmt að sjá Gillz í hvert skipti sem hún kom heim. Ég tók símaskránna heim til Reykjavíkur og stillti upp í glugganum svo Gillz horfir í áttina að mér, enda hef ég það ekki í mér að leyfa honum að stara á nágranna mína.
„Vissirðu að 14 árum seinna ertu sakaður um að næstum kæfa fjölda fólks á illa skipulögðum tónleikum?“ spyr ég hann, en hann starir bara á mig með sama svip og áður, eins og honum sé alveg sama.
***
Fyrsta símaskráin á Íslandi kom út árið 1905 og var bara örþunnur bæklingur samanborið við þá sem situr í gluggakistunni minni. Aðeins 30 ár voru liðin frá útgáfu fyrstu símaskrár heimsins, en það var í Connecticut, BNA árið 1878. Þessar fyrstu símaskrár voru ekki mikið skreyttar en þó var forsíðan á þeirri íslensku með mynd sem er harla íslensk. Fimm svölur sitja á símalínu og á jörðinni skríður snigill í kuðungi sínum. Hún kallast á við símaskrána 2011. Svölurnar sýna líkamlega getu sína en snigillinn situr bara þarna fyrir miðju.
Forsíða fyrstu símaskráinnar - Landsbókasafn Íslands Háskólabókasafn
Túlki hver það með sínum hætti. En svölurnar 2011 er kvennalið fimleikafélagsins Gerplu sem vann evrópumeistaratitil í Malmö árið áður, 2010. Þannig unnu þær sér inn mikið þjóðarstolt og birtust víðsvegar í íslenskum miðlum. Gott dæmi er tónlistarmyndband Retro Stefson við lagið Kimba, þar sem við getum séð sömu andlitin og prýða símaskrána í öllu virðulegra ljósi. Þar sýna þær listir sínar og líkamlega færni með öflugum baráttusvip. Þar eru þær ekki bara sýningargripir í skugga ræktartrölls, heldur sjálfstæðir íþróttaiðkendur, ljós í myrkri brotinnar þjóðar á tímum hrunsins.
Símaskráin átti nefnilega að vera mikilvægur spegill í menningu þjóðarinnar. Um langt skeið hafði hún birt list og ljósmyndir sem endurspegluðu þjóðarsálina, og að sama leiti fékk hún sinn sess í menningarlífi fólks.
Fermingarmynd 2013 - Arnþór Ósmann Atlason
Því þótti þjóðinni sárt að sjá mann sem naut ekki mikillar virðingar þjóðarinnar, og eins og bensín á eldinn voru ásakanirnar um kynferðisofbeldi á hendur honum ekki til þess að lægja gagnrýnina. „En þú hlaust nú að vita að von væri á þessu, er það ekki Gillz?“ spyr ég hann en sami kaldi svipurinn mætir mér.
***
14. maí 2011 var útgáfudagur símaskrárinnar þetta árið. Fljótlega spratt upp gagnrýni á ljósmyndina þar sem fólk með vit á gafískri hönnun kom fljótlega auga á að myndinni hafði verið breytt í forritinu Photoshop, þar sem mitti Gillz hafði verið minnkað og handleggirnir stækkaðir. Úr varð mikil umræða um steranotkun meðal íslenskra karla og hætturnar sem því fylgja, og bent var á að myndanotkun sem þessi væri einn helsti hvatinn fyrir því að menn leitast eftir svo ónáttúrulegri líkamsbyggingu.
Skopmynd af símaskránni - Birgir R. Baldursson
En það var varla hægt að sleppa manninum á forsíðunni, enda var hann „höfundur“ símaskrárinnar það árið, titill sem margir veltu fyrir sér enda góð spurning hversu mikla höfunda hæfileika þarf til að rissa upp símaskrá. Hann fékk þó að kynna verk sitt á útgáfuhófi og fimleikastelpurnar, sem aðstoðuðu við „efnistökin,“ fengu að vera með til að árita verkið. Ég var ekki mikill aðdáandi þessara nýbökuðu rithöfunda svo ég var ekki viðstaddur viðburðinn en ég get ímyndað mér að hann hafi verið í þessa áttina:
Símaskráin var auglýst sem „mössuð og stútfull af upplýsingum.“ Ég veit lítið um það þar sem hún er ennþá í plastinu hjá mér, en fjölmiðlar höfðu gaman af þessari kynningarherferð og varð símaskráin að algengu gríni í fjölmiðlum í kjölfarið. Eldri borgari sendi dálkinum Velvakanda hjá Morgunblaðinu þá spurningu hvort ekki mætti sleppa því að prenta símaskrána árlega, og mynd þar sem öfugri myndbreytingu hafði verið beitt birtist sem hluti af umfjöllun um steranotkun hjá DV.
Sú umræða sem stóð mest upp úr fyrir mér var viðtal frá nóvember 2011 við Agnesi Björt úr hljómsveitinni Sykri þar sem hún var spurð út í uppáhalds bók og sagði eftirfarandi:
„Símaskráin, hún nýtist í svo ótal margt! Til dæmis eru fjórar símaskrár sem halda uppi rúminu mínu og þegar ég á ekki pening fyrir klósettpappír þá er símaskráin þarfasti þjónninn. […]“
Virðingin var ekki meiri en svo.
„Hvað finnst þér um það Gillz? Fólk hafði ekki hátt álit á þér,“ segi ég við hann en ennþá brosir hann sama brosinu.
Þetta var ekki í fyrsta skiptið sem símaskráin varð að umtalsefni, en árið 1987 var hún til dæmis gagnrýnd fyrir breytingu á stafrófsröðun, þar sem broddstafir (svo sem á, é, ú, o.s.fr.) voru aðskildir frá broddlausum stöfum. Lausnin við því var að segja við þjóðina „sættið ykkur við þetta,“ en árið 2011 var þjóðin ekki að fara að sætta sig við að meintur kynferðisbrotamaður væri framan á metsölubók heimila landsins.
***
Eftir háværa umræðu og kvartanir var sú ákvörðun tekin í desember 2011 að fjarlægja símaskrána úr sölu. En stjórnendur hjá Já.is dóu ekki ráðalausir eins og sjá má í áramótaskaupinu:
Já, límmiðar voru framleiddir svo hægt væri að hylja Gillz. Það var meira að segja fjölbreytt framboð. Einn var eins og búið væri að rífa þann hluta forsíðunnar sem Gillz er á, en annar var mynd af fleiri meðlimum Gerplu.
Um skeið var Gillz ekki vinsæll maður. Eins og aðrir sem sakaðir eru um kynferðisofbeldi þá var honum slaufað og hann missti allan sinn feril og er nú… eða hvað?
„Kæmi það þér á óvart Gillz, ef ég segði þér að í framtíðinni muntu halda áfram að framleiða lög, sjónvarpsefni og kvikmyndir?“ spyr ég. Illkvittnislegt brosið er ærandi.
***
Gillz var sýknaður af öllum kærum og gerðist þeim mun stórtækari en áður í framleiðslu á afþreyingarefni. Hinsvegar átti símaskráin eftir að renna sitt skeið og árið 2016 kom síðasta eintakið út. Hún var fallega skreytt, eins og gamall blúndudúkur, en það fór framhjá mörgum. Fólk hafði misst allan áhuga á þessari bók eftir fíaskóið 2011. Nú er hún einungis fótspor á netinu, og safngripur á mínu heimili. Sumir óska þess líklega að spilunum væri öfugt gefið.
Þó á sagan það til að endurtaka sig og þótt að Gillz var hlíft við ásökunum um að kæfa ungar konur var hann aftur ásakaður um að kæfa hópa fólks á tónleikum sínum í Laugardalshöll 14 árum seinna. Hafi hver sína skoðun á því.
„Hvað finnst þér um það Gillz?“ og kalt augnaráðið mætir mér enn einu sinni áður en ég set bókina ofan í kassa og niður í geymslu.