Aðdáun, áreitni og rasismi

Ég sit í bíósal og iða af spennu. Ég hef beðið eftir því að geta horft á þessa bíómynd í ár og nú er stundin loks runnin upp. Unglingsstelpur sem fylla salinn sitja á endum sæta sinna til að missa ekki af neinu. Myndin byrjar og hann birtist á skjáinn: Edward Cullen, eða öllu heldur, Robert Pattinson. Salurinn ópar af gleði yfir fagra manninum á stóra skjánum og hver og stelpa hugsar það sama: þarna er Robert minn.

 

Ég man þegar ég sá frétt einhvers slúðurmiðils greina frá því að Robert Pattinson og FKA Twigs væru í ástarsambandi. Ég hef alltaf haft gaman af því að sökkva mér inn í persónulíf þeirra frægu og mér þóttu þetta gleðifréttir. Twilight-myndirnar hafa verið í uppáhaldi hjá mér frá því að ég sá þá fyrstu og ég hef alltaf verið „team Edward“. Mér og fleirum Twilight-aðdáendum þótti Robert Pattinson sætastur allra og þegar ég sá að hann og FKA Twigs væru byrjuð saman árið 2014 þá varð ég mjög glöð fyrir þeirra hönd. Hins vegar voru margir Twilight-aðdáendur ósammála.

 

Robert Pattinson er hvítur, hávaxinn karlmaður með tignarlegt brúnt hár sem þykir almennt mjög myndarlegur og öðlaðist frægð, að miklu leyti fyrir útlit sitt, í Twilight-seríunni. Stelpur frá unglingsaldri og allt upp í eldri konur streymdu í bíósalinn í hvert skipti sem ný mynd í seríunni var frumsýnd og störðu með aðdáun og augun límd við stóra skjáinn í gegnum alla myndina. Ég er ekki frá því að Pattinson hafi verið mesta „heartthrob“ þess tíma. Hann bókstaflega glitrar í myndinni og skín (Twilight-vampírur eru mjög frábrugðnar vampírum úr öðrum bókum og myndum) og er sannkölluð glansmynd hins fullkomna karlmanns.

 

FKA Twigs, sem heitir í raun Tahliah Debrett Barnett, er svört listakona sem semur tónlist og dansverk sem oft væri hægt að kalla gjörning. Í myndböndum hennar er oft mikil tilfinning og þau eru gjarnan súrrealísk og abstrakt, og textana þarf oft að kryfja. Stíllinn hennar er óhefðbundinn og listrænn og hún er mjög djörf þegar kemur að tísku, hún skapar sinn eigin stíl og hefur til að mynda nýlega verið með fremri hluta hársins alveg rakaðan af fyrir utan hanakamb sem leiðir niður í langt tagl. 

 

Þegar samband þeirra var opinberað voru margir Twilight-aðdáendur og aðdáendur Pattinsons ósáttir. Þeim þótti hann of góður til að vera með þessari skrýtnu konu, of sætur. Átti sæti, hvíti, glitrandi draumaprinsinn þeirra núna að fara að vera með svartri, skrýtinni listaspíru? Þessi óánægja leiddi til þess að FKA Twigs varð fyrir miklu aðkasti. Hún var kölluð öllum illyrðum sem hægt er að ímynda sér. Henni var líkt við apa – þar sem hún sást í rauðum kjól með Pattinson fann fólk mynd af apa í rauðum kjól til að líkja við hana. Þessar ofsóknir stóðu yfir frá því að þau byrjuðu saman árið 2014 og þar til þau slitu sambandi sínu árið 2017.

 

Eftir sambandsslitin gaf FKA Twigs út plötu þar sem mörg lögin eru talin vera skrifuð um samband hennar og Pattinsons. Textarnir eru mjög einlægir og laglínurnar margar þungar og tilfinningaríkar. Fyrsta lagið sem gefið var út á plötunni og náði miklum vinsældum heitir Cellophane. Textinn í því segir frá erfiðleikum þess að leggja sig allan í samband með einhverjum sem leggur ekki jafn mikið fram, og að verða fyrir aðkasti þeirra sem vilja sjá sambandið hrynja í sundur. Það er ekki hægt að lýsa laginu í orðum einum heldur þarf að hlusta á það og helst horfa á tónlistarmyndbandið við til að finna fyrir allri tilfinningu lagsins.

 

Það er ótrúlegt hvað það getur reynst auðvelt að fela sig á bak við skjá og skrifa athugasemdir og óumbeðnar skoðanir á fólki sem maður þekkir ekki neitt. Það að það sé nóg fyrir sumt fólk að horfa á mynd og verða dolfallinn yfir leikara sem veit ekki einu sinni af tilvist þess til að það líki svartri konu við apa opinberlega á netinu er mjög óhugnanlegt. Það er auðvelt að sökkva sér inn í menningarheim hinna frægu og getur verið spennandi að fá innsýn í líf þeirra, en það er mikilvægt að missa ekki tökin á þeim raunveruleika að vitneskja okkar um þá er lítil sem engin. Það sem við teljum okkur vita er mjög yfirborðskennt og oft frá óþekktum eða ótraustum heimildum.

 

Netáreitið gagnvart FKA Twigs endurspeglar stærra vandamál sem á rætur að rekja í rasisma og hlutgervingu þeirra frægu. Á tíma þar sem allar heimsins upplýsingar virðast búa í símum okkar og algoriþmar sjá um að velja þær upplýsingar sem birtast okkur fyrst, þá er mikilvægt að tileinka sér gagnrýna hugsun. Eins frábært og það er að hafa gaman af myndum, tónlist og öðrum miðlum sem og fólkinu sem kemur að því að búa þetta efni til, þá er mikilvægt að muna að þetta fólk er aðeins fólk og við þekkjum það ekki í raun. Aðdáun má ekki þróast í eignarréttartilfinningu.


Ég sit við tölvuna mína með tárin í augunum á meðan ég horfi á myndbandið við lagið Cellophane með FKA Twigs. Hún fer hring eftir hring á súlu og hefur mjúkar hreyfingar sem einhvern veginn tekst að endurspegla uppgjöfina og þreytuna hennar. Hún er einlæg og sár, eins og allir væru í sporum hennar. Hún horfir í myndavélina með augnaráði sem lætur mig finna fyrir því að hún er bara mennsk.


Previous
Previous

Circlejerk