Dómsskrun í augum absúrdismans
Dómsskrun getur leitt til einmanaleika og þunglyndis
Dómsskrun (Doomscrolling) er fyrirbæri sem flest fólk nútímans kannast vel við. Þegar talað er um dómsskrun er oftast bent á það hvernig fólk festir sig í endalausu skruni niður athyglisfreka algóriþma samfélagsmiðla. Þar flakkar fólk á milli efnis sem nær að brúa bilið á milli frétta—sem bera styrk heimilda og sönnunargagna að baki sér—og kunningjans niður í bæ sem reynir sitt besta að sannfæra þig um samsæriskenninguna sem honum datt í hug þann dag. Langvarandi áhrif dómsskrunsins hafa verið rannsökuð þó svo að það sé tiltölulega nýlegt fyrirbæri. Rannsókn sem birt var í Nature Human Behavior leiddi í ljós að einstaklingar sem áttu erfitt með þunglyndi og kvíða væru líklegri til að auka neyslu slíks efnis á netinu. Langvarandi athygli þeirra á slíku efni leiddi til þess að líðan þeirra versnaði enn frekar, sem leiddi til hringrásar þar sem neikvæðar tilfinningar og neysla styrktu hvort annað. Þessar niðurstöður stemmdu við niðurstöður annarra rannsókna, til dæmis frá Psychology Today og British Psychological Society.
Skaðinn sem dómsskrunið ber með sér er augljós. Það er einnig hægt að sjá það að dómsskrunið er ekki að fara neitt. Miðlar eins og Tik Tok og Instagram virðast helteknir að því að læsa heila kynslóð í vítahring samsettum af kóða sem veit ekkert betur en hvaða „soap cutting“ myndband eða „hydraulic press“ myndbönd það ætti að setja inn á milli frétta um það hversu mörg börn voru myrt í Palestínu þann dag. En samt sem áður þarf maður að passa sig að horfa ekki of grunnt í slík fyrirbæri. Frekar ætti að spyrja hvort það gæti í raun verið dulið gagn á bakvið dómsskrunið?
Heimspekingurinn Albert Camus er einn sá áhrifamesti þegar kemur að absúrdisma og því fjarstæðukennda. Hann talar um það fáránlega (Absurd) sem fyrirbæri sem heimurinn kastar frá sér til að minna þig á hversu fáránlegur hann er í raun og veru. Það gæti verið í formi þess að missa innikött í bílslysi eða einfaldlega horfa í spegil nógu lengi til að fatta að þú ert í raun og veru lítið annað en samsetning af holdi og húð. Þessi óhugnanlegu atvik vekja tilvistarkreppuna innra með fólki sem getur oft leitt það í þunglyndi.
Í bók sinni “The Myth of Sisyphus”, skrifar Camus um þrjár helstu leiðirnar sem fólk nýtir sér þegar kemur að því að sleppa frá því fjarstæðukennda og fáránlega. Trúarbrögð (Leap of Faith/Leap into Faith) er fyrsti flóttinn. Camus gagnrýnir trúarbrögð, sérstaklega tilvistarstefnu Kierkegaards, sem undanskot frá því fáránlega. Kierkegaard viðurkenndi fáránleika lífsins en leysti það með „trúarstökki“, þar sem lausnin var að stökkva í faðm trúarinnar. Camus leit á þetta sem leið til að forðast vandamálið í stað þess að takast á við það í alvöru.
Von (Útópían) er önnur leið sem Camus skrifar um. Margir leggja trú á framtíðarályktanir, eins og þá hugmynd að sagan sé að þróast í átt að þýðingarmiklum endalokum (eins og í Hegelískri eða Marxískri hugsun). Camus lítur á þetta sem enn eina flóttaleiðina, neitun þess að samþykkja núverandi fáránleika tilverunnar í þágu ímyndaðrar upplausnar framtíðarinnar.
Þriðja og síðasta flóttaleið mannsins er það sem Camus kallar heimspekilegt sjálfsvíg. Þetta hugtak vísar til tilhneigingar heimspekinga (t.d. Husserl og Heidegger) að kynna yfirskilvitsleg hugtök sem í raun afneita fáránleikanum. Camus heldur því fram að leiðir sem reyna að raungera eða kerfisbinda merkingu úr því fáránlega, í stað þess að samþykkja fáránleikann sem grófa staðreynd, séu leiðir til eins konar vitsmunalegs flótta.
Ég tel Dómsskrunið í sjálfu sér sem gilda flóttaleið frá fáránleika lífsins. Netkynslóðin hefur vanist því að hafa stanslausa athyglistruflun í formi skemmtunar líkt og YouTube-myndbanda sem horft er á með matnum eða hlaðvarpið sem haft er í eyrunum þegar ekið er í vinnuna. Þessar leiðir eru oft saklausar og fela leiðindi hversdagsleikans en í þessum venjum er undirliggjandi flótti. Í stað þess að rölta í náttúrunni með eyrun opin og hugann frjálsan þá fyllum við upp hugann af tali og tónlist sem heldur okkur frá því að þurfa að takast á við fáránleikann og hugsanirnar sem honum fylgja. Ef aldrei er tekist á við óttann við innri hugsanir er hætta á að sá ótti margfaldist þegar kemur að því að loksins takast á við hann.
Þá er gott að spyrja sig, eru góðar ástæður fyrir því að taka þátt í dómsskruninu? Ég tel svarið vera já. Þó svo að hugtakið vísi yfirleitt til óhóflegrar neyslu neikvæðra frétta þá er þetta ekki eins svart og hvítt og það getur litið út fyrir að vera. Til dæmis getur hófleg neysla aukið vitund og undirbúning fyrir hugarlegum krísum. Það að vera upplýst um atburði líðandi stundar getur komið sér vel. Hins vegar er mikilvægt að koma jafnvægi á þessa notkun með jákvæðu efni og sálfræðilegum aðferðum til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif á geðheilsuna. Einnig er mikilvægt að ganga úr skugga um það að notandi gæti auðveldlega greint á milli efnis sem er stutt af trúverðugum heimildum og efnis sem er lítið annað en persónuleg skoðun með ögn af sannleika (ef einhvern) á bakvið sig. Eins og með aðrar flóttaleiðir slíkt og áfengi er mikilvægt að halda sig við hóflegan flótta og passa að nýta sér dómsskrunið aðeins sem stutta flóttaleið frá fáránleikanum. Það þarf að passa að nýta sér dómsskrunið ekki sem meðvitaða blindu og leið til að neita sér um gagnlegheitin sem felast í því að takast á við fáránleika heimsins, sem og frelsið sem fylgir þegar hið fjarstæðukennda getur verið samþykkt. Af því þegar innikötturinn þinn í deyr bílslysi og þér er kastað inn í fáránleikann, þá er myndband af manni að skera litríkar sápur ekki að fara að breyta neinu nema að gefa þér örfáar mínútur af flótta.