Grábjörn

Þann 25. september 2003, tíu dögum fyrir andlát sitt, stillti Timothy Treadwell myndavélinni sinni varlega upp við iðandi læk. Lækurinn var vel grýttur og umkringdur skærgrænu grasi og balsamösp. Timothy rölti varlega að lækjarbrúninni og stillti sér upp fyrir framan myndavélina með ljósu lokkana ógreidda og danglandi yfir sólgleraugum sínum. Hann passaði að grábjörninn sæist í bakgrunninum, aðeins nokkrum metrum aftar, röltandi varlega á milli grjótsins í læknum. Léttur vindur lék um trén og grasið og þegar Timothy hafði sett sig í stellingar hóf hann að segja frá birninum:

„Ég er hér á mynd með Oli, stóra, gamla birninum - stóra, gamla, pirraða birninum… Það er ekki mikill fiskur hér svo þú getur skilið hvers vegna hann vill hafa stjórn á læknum…“

Treadwell stoppaði með nokkurra sekúndna millibili til að líta fyrir aftur fyrir sig á björninn. Hann virtist passa sig á honum. Björninn ráfaði um lækinn hægt og rólega og virtist vera í leit að fiski.

„Hann er líka fúll björn, ég rakst á hann um daginn og fann til með honum. Mér fannst hann nokkuð horaður, nokkuð beinaber - en hann ætlaði að ráðast á mig, ég þekki tungumál björnsins. Ég náði að koma í veg fyrir það og það er í lagi með mig, en ég skal segja þér eitt, það er gamli björninn - sá sem á í erfiðleikum með að komast af, og er einnig ýginn, sem er sá sem þú þarft virkilega að passa þig á, því þetta eru birnirnir sem eiga það stundum til að drepa og éta menn til að komast af. Gæti Oli, stóri, gamli björninn mögulega drepið og étið Timothy Treadwell? Hvað finnst þér, Oli?“

Treadwell snéri sér að birninum eins og hann biði eftir svari frá honum. Björninn veitti honum enga athygli.

„Ég held að ef þú sýndir veikleika í kringum hann, þá myndirðu enda ofan í mallanum hans.“

***

Treadwell átti nokkuð hefðbundna æsku. Hann fæddist Timothy William Dexter og ólst upp í millistéttarfjölskyldu í Long Island, New York ásamt fjórum systkinum. Hann stóð sig ágætlega í skóla og frábærlega í sundi, átti marga vini og var mikill dýravinur frá því að hann var kornungur. Treadwell fluttist til Illinois þegar honum var boðinn skólastyrkur fyrir árangur sinn í dýfingum og gekk í Bradley University. Þar eignaðist Treadwell nýja vini og hóf að drekka áfengi og reykja gras en meiddist í bakinu fyrir slysni, missti skólastyrk sinn og fluttist aftur til foreldra sinna. Treadwell flutti loks til Californiu um tvítugt í von um að ná árangri sem leikari. Þar breytti hann eftirnafni sínu í Treadwell, sem honum þótti flottara og eftirminnilegra. Honum gekk hins vegar erfiðlega að fá hlutverk og leiddist í neyslu sem leiddi meðal annars til þess að hann lést nærri því úr heróínofskammti. Þegar Treadwell var í kringum þrítugt sannfærði vinur hans hann um að ferðast til Alaska og sjá birnina þar, sem leiddi til þess að Treadwell varð hugfanginn af björnunum og líf hans hóf að snúast um þá. Treadwell hélt því fram að birnirnir hefðu bjargað honum frá neyslu sinni og að hann ætti þeim að þakka fyrir að hafa bjargað lífi sínu.

Treadwell eyddi þrettán sumrum með björnunum í Katmai-þjóðgarðinum í Alaska. Hann tók lítið með sér í ferðalögin - tjald og svefnpoka, mat sem hann geymdi í tunnum svo birnirnir kæmust ekki í hann, útivistarfatnað, hníf og önnur tól sem hann gæti þurft og myndavélina sína ásamt því sem fylgdi henni. Á myndavélina tók Treadwell upp yfir hundrað klukkustundir af efni frá ferðalögum sínum í Alaska. Hann myndaði birnina og lifnaðarhætti þeirra ásamt öðrum dýrum eins og refum, fuglum og úlfum. Myndböndin voru oft þess háttar að Treadwell talaði beint við myndavélina, aðallega um birnina og einkalíf sitt. Myndböndin veita okkur innsæi í líf Treadwell meðal bjarnanna og hafa þau meðal annars verið nýtt í heimildamynd Werner Herzog sem nefnist Grizzly Man, og fjallar um Treadwell og líf hans. Samband Treadwell við birnina var óhefðbundið og mjög náið - hann gaf þeim nöfn og þekkti þá í sundur, talaði við þá eins og þeir skildu hann og grét og syrgði þá þegar þeir dóu. Sumir sem nánir voru Treadwell eða hafa skoðað efni upptaka hans telja að hann hafi að ákveðnu leyti séð sig sem björn - þeir vilja meina að hann hafi talið sig vera einn þeirra.

Dýravelferð og -vernd var Treadwell mjög mikilvæg og tileinkaði hann líf sitt vernd bjarnanna í Katmai-þjóðgarðinum. Hann stofnaði Grizzly People, samtök sem starfa enn í dag og eru helguð fræðslu og vernd grábjarna. Treadwell trúði því að ef hann gæti fengið fólk til að líta á birnina með sínum augum gæti hann verndað þá og dregið úr ótta við þá. Hann var stranglega á móti veiðum og gagnrýndi meðal annars stjórnendur þjóðgarða fyrir að gera ekki nóg til að vernda birni og sýna kulda og skort á umhyggju í samskiptum við birnina. 

Samband Treadwell við birnina var og er enn mjög umdeilt og margir eru ósammála því hvernig hann átti í samskiptum við þá. Frumbyggjar Alaska hafa í gegnum tíðina reynt að halda ákveðinni fjarlægð við birnina af virðingu við þá og af augljósum öryggisástæðum. Þeir hafa sett mjög skýr mörk varðandi birnina og halda þeim. Meðlimir Alutiiq-ættbálksins hafa gagnrýnt aðferðir Treadwell fyrir að virða ekki birnina og gera þeim meira slæmt en gott. Ættbálkurinn hefur reynt að virða mörkin milli bjarna og manna í um 7000 ár og meðlimir ættbálksins telja margir Treadwell hafa vanvirt mörkin með þeim afleiðingum að birnirnir forðist sumir ekki menn lengur eins og þeir gerðu. Að mati meðlima Alutiiq-ættbálksins stofnar þetta mönnum og björnum í hættu.

Líf Treadwell endaði í lok þrettánda sumarsins sem hann eyddi í Katmai-þjóðgarðinum með björnunum. Þáverandi kærasta hans, Amie Huguenard, hafði ferðast með honum til Alaska og varið tíma með björnunum og lést hún sama dag stuttu á eftir Treadwell. Í dagbókarfærslum Treadwell kemur fram að Huguenard hafi verið hrædd við birnina og mun varkárari í samskiptum við þá en hann. Yfirleitt fór Treadwell fyrr frá Katmai-þjóðgarðinum en árið 2003 ákvað hann að snúa aftur og verja meiri tíma þar. Þetta setti hann og Huguenard í hættu þar sem birnirnir eru svangir og minna er um mat á þessum tíma árs, auk þess sem þetta er tíminn þar sem þeir reyna að veiða sér eins mikið og þeir geta til matar áður en þeir leggjast í dvala yfir veturinn. Landverðir þjóðgarðsins höfðu varað Treadwell við en hann kaus samt sem áður að verja lengri tíma í garðinum. Þetta leiddi til þess þann 5. október 2003, þar sem Treadwell og Huguenard lágu í tjaldi sínu nálægt laxfljóti og Treadwell ákvað að kíkja út úr tjaldinu, að stór, horaður grábjörn réðst á Treadwell. Huguenard steig út úr tjaldinu og reyndi að berjast á móti birninum á meðan Treadwell öskraði á hana að forða sér. Ástæða þess að síðustu augnablikin í lífi Treadwell, sem og Huguenard, eru okkur kunnug er að í tjaldinu var kveikt á myndavél Treadwell. Linsulokið var að vísu á svo engin myndbandsupptaka var til af andláti þeirra en hljóðið náðist allt á upptöku. Upptakan er ekki og hefur aldrei verið aðgengileg almenningi en er í eigu Jewel Palovak, fyrrverandi kærustu og vinkonu Treadwell.

***

Þann 6. október 2003 rölti Willy Fulton, flugmaður og nákominn vinur Treadwell, á milli balsamasparinnar og í gegnum hátt grasið í Katmai-þjóðgarðinum. Hann leiddi landverði þjóðgarðsins að svæðinu þar sem hann hafði stuttu áður komið að gömlum, horuðum grábirni þar sem hann át það sem eftir var á rifbeinum sem lágu í grasinu. Fulton hafði áttað sig á um leið og hann rak augun í rifbeinin að þau væru annaðhvort úr vini hans Tim, eða kærustu Tims, Amie. Í fyrstu var grábjörninn hvergi sjáanlegur en landverðirnir og Fulton skimuðu eftir honum. Skyndilega heyrði Fulton einn landvarðanna kalla:

„Björn!“

Fulton beygði sig niður og heyrði landverðina endurtekið skjóta úr byssum sínum. Þegar þeir hættu loks að skjóta reis Fulton hægt upp á ný og var nú umlukinn reykskýi eftir byssuskotin. Hann leit í áttina sem landverðirnir höfðu skotið og gekk í átt að birninum sem hann sá rétt svo glitta í í gegnum reykinn. 

„Ekki koma nálægt birninum!“

Fulton heyrði í landvörðunum en vissi að björninn var dauður. Hann gekk hægt í átt að honum og leit niður á hann þar sem hann lá í blóði sínu. Þetta var sami björn og hafði drepið Tim og Amie. Hann var viss um það. Fulton fylltist sorg vitandi það að vinur hans hefði látið lífið við það að gera það sem hann taldi vera sitt besta til að vernda birnina. Hann fylltist enn meiri sorg vitandi það að Tim hefði aldrei fyrirgefið sér það að björninn sem varð honum að bana þyrfti að vera aflífaður.


Previous
Previous

Haltu kjafti!

Next
Next

Dómsskrun í augum absúrdismans